Tímaleysi

Ég hélt þegar ég byrjaði að blogga að ég hefði nægan tíma aflögu í svoddan Smile annað hefur komið á daginn, það þarf s.s. þokkalega góðan tíma ef þessu er sinnt eitthvað af viti, eða því sem ég flokka þar undir. Það hefur verið SVO mikið að gera hjá mér að ég hef ekki einu sinni getað fylgst almennilega með umræðunni og það er nú ekki gott, þá er maður ekki nægjanlega gjaldgengur í samræðum hvað þá meira. Annars er þessi tími mánaðarins hjá mér eiginlega bara, borða,vinna,sofa Smile það léttir svo á þegar mánaðarmótin eru gengin yfir.

Mér þótti gott að fá þessa litlu innsýn í veturinn sem brá fyrir í gær og fyrradag, það hreinsar hugann að fá smá ferskleika í loftið. Það var nú annars svolítið spaugilegt að sjá alla þá strollu af bílum sem biðu fyrir utan hjólbarðaverkstæðin s.l. tvo morgna. Annars ætla ég að vona að fólk almennt sniðgangi nagladekkin og velji aðra kosti þennan veturinn, við þurfum sannarleg að huga betur að hvernig við getum spornað við allri þeirri mengun sem í andrúmsloftinu er, af nægu er að taka og  nagladekkin þar á meðal. Ég heyrði ávæning af umræðu varðandi virkjanirnar sem spretta upp eins og gorkúlur í nágrenni borgarinnar og vona að almenningur láti í sér heyra hvað það varðar. Ég vona svo sannarlega að hægt verði að sporna þar á móti áður en borgin verðu orðin víggirt raflínum og spúandi óþverra og viðbjóði.

Það er nóg sem komið er.  


Fallegt haustveður

Mikið lifandis skelfing var veðrið fallegt í dag. Þegar svona dagar  koma er eins og maður fyllist af orku og geti sigrað heiminn. Þannig virka þeir allavega á mig. Ég var bara svo óheppin að geta ekki farið út fyrir borgarmörkin í dag þar sem litla bílkrílið mitt er rétt rólfært milli staða innanbæjar og ekkert á að treysta í lengri ferðir. Það stendur til bóta því ég hef fest kaup á bíl sem tekur brátt við af pútunni minni sem er búin að vera dyggur þjónn og bera mig landshorna milli á liðnum árum í allskyns ófærur og sannarlega komið á óvart. Það er nú ekki þar með sagt að verið sé að leggja "drossíunni" hún eignast nýjan eiganda sem ætlar að leyfa þessum öðlingi að fylgjast með bílamenningunni eitthvað lengur.

Hann var fallegur hann tungli gamli  þar sem hann kúrði í ró sinni á norðurhimninum þegar ég ók heimleiðis seinni hluta dagsins, aðeins var hann nú farin að láta á sjá hægra megin Smile   Alltaf flottur, alltaf rósamur og skilar því sannarlega niður til okkar.

Ég er reið.

Hvernig væri nú að stjórnin færi að koma í verk því sem þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar. Er þetta fólk svo upptekið af embættum sínum og framapoti að það ýtir til hliðar því sem máli skiptir og til hvers það er þarna. Mér dettur það oft í hug að það að ná völdum og komast í ráðherrastól  sé bara mörgum ofviða, það einfaldlega höndli það  ekki. Það er alltaf verið að sigla milli skers og báru og hugnast öllum. Það einfaldlega gengur bara ekki upp að vinna þannig. Öryrkjar og eldri borgarar hafa verið vanvirtir svo árum skiptir og það var boðskapur stjórnarflokkanna beggja að taka á þessum málum. Þetta eru hlutir sem eiga að mínu mati að ganga fyrir, þeir eiga að vera framar í forgangsröðun en raun ber vitni. Ég heyrði viðtal við ættingja alsheimersjúklinga einn morguninn í liðinni viku, fólk sem búið var að ganga milli Heródesjar og Pílatusar hvað varðar aðbúnað þessa fólks og hvorki gengur né rekur. Þeir vitnuðu til tíma Sifjar sem heilbr.ráðherra en ekkert hefur gerst. Þeir höfðu einnig haft samband við aðra aðila s.s. þjóðkirkjuna m.a. en þar var þeim  einfaldlega ekki svarað. Ég verð alltaf mjög hnuggin þegar ég heyri svona og mér verður hugsað til þess sem við köllum "vanþróuð lönd" já "vanþróað", það er greinilegt að víða ríkir "vanþróun" hvað er það annað en vanþróun að setja til hliðar þá sem minna mega sín eins og öryrkja og segja bara eins og stöku þingmaður hefur gert að það sé bara ekkert mál að lifa á þessum bótum, fólk verði bara að sníða stakk eftir vexti. Það er nú það.  Gamla fólkinu er bara plantað inn á stofnanir og þar má það dúsa við lágmarksþjónustu, ég segi lágmarksþjónustu því það blessað fólk sem þar vinnur kemst einfaldlega ekki yfir nema það sem kallast lágmarksþjónusta. Þegar ekki er hægt að sinna einstaklingi nema á kaffi og matartíma, þess á milli liggur hann í rúmi sínu og í sumum tilfellum í algerri þögn því ekkert áreiti er. Þetta er hreint út sagt skelfilegt. Ráðamenn þjóðarinnar ættu að skammast sín. Eldri borgarar þessa lands eru þeir sem búnir eru að byggja grunninn að því sem þetta svokallaða alsnægtaþjóðfélag er í dag. Alsnægtirnar eru bara ekki að skila sér til á rétta staði. Það er ekki nóg að tala fjálglega þegar kosningar eru í nánd eins og t.a.m. Samfylkingin gerði og gleyma sér svo í leðurklæddum stólum alþingis. Það má vera að þetta fólk sé búið að safna í sarpinn sinn aurum og sjá fram á að geta keypt sér góða þjónustu í ellinni og ef eitthvað hendir, en það er nú bara þannig að það hafa ekki allir þau tök í lífinu. Þeir sem gefa sig út fyrir að vera menn félagshyggju og jafnræðis eiga að vera menn til að standa við það. Ég hef það á tilfinningunni að hræðsla við að missa stólinn sinn eigi þarna hlut að máli. Ég er reið. Ég er reið vegna þess misréttis sem ríkir í þjóðfélagi sem út ávið telur sig ofarlega á lista meðal fremstu þjóða.......en í hverju. Það væri kannski ráð að staldra aðeins við og hætta þessu ani og huga að rótinni. Það er nefnilega þannig að ef rótin fær ekki næringu sem skyldi  þá teygja sig út langir veikir angar, þannig sé ég þetta fyrir mér. Lífsgæðakapphlaupið er löngu hlaupið með okkur í gönur og við komin ljósár frá grunninum okkar. Það snýst allt um útrás hér og útrás þar, græða, eignast flottustu húsin og stærsta bílinn, en sálin gleymist. Ég skora á þá stjórnarmenn sem gera sig út fyrir félagshyggju að opna nú á sér augun og standa við orðin sín. 

Það er annars ljómandi veðrið í borginni þessa stundina,uppstytta og tært loftið. Ég var að skemmta mér við að horfa á rollinga gera prakkarastrik áðan utan við húsið mitt. Það var nú ósköp saklaust, en ég vona að það verði ekki hlutskipti þessa ungviðis að eyða sínu ævikvöldi við "lámarksþjónustu" á einhverju af öldrunarheimilum landsins.


Samkynhneigðir/negrastrákar

Merkilegt að fylgjast með umræðunni um afstöðu þjóðkirkjunnar í máli samkynhneigðra. Fegin er ég að vera búin að segja mig úr þeirri samkundu sem þjóðkirkjan er. Ég er gáttuð á þeirri þröngsýni sem ríkir þar og ég held að það sé, sem og með marga aðra hluti að þekkingarleysi skapi fordóma, því þessi afstaða er að mínu mati ekkert annað en fordómar. Ég sá á bloggi hjá einum hér skemmtilega tilvitnun í gömul gildi þ.e. að karlar kvænast en konur giftast. Hann henti því svona  fram að þarna væri kannski eitthvað sem hægt væri að nota Wink Það er samt mín trú að í þessu tilviki eigi allir að sitja  við sama borð, ég er ekki  að skilja hvað þetta orð "hjónaband" er að þvælast svona fyrir kirkjunnar mönnum þar sem þeir eru jú að boða það sem kristur lagði til málanna á sínum tíma og var það ekki eitt af hans mottóum að allir væru jafnir. Flokkast þetta þá ekki undir rangtúlkun á hans orðum Smile Það er víst endalaust hægt að tala um þetta fram og til baka, en allavega er gott að umræða skuli vera í gangi og fólk tjái sig og segi hvað það er að hugsa hvað þetta varðar.

Annað var það á ljósvakanum sem ég var frekar slegin yfir og það er umræðan um "Tíu litla negrastráka " ég  er ekki alveg að ná hvað er í gangi með þá félaga. Þetta er að vísu bók sem ég sá ekki í mínum uppvexti en mamma mín sagði mér frá henni. Ég ólst upp við "tíu litla tappa"sem er nánast sami grauturinn í sömu skál nema að þeir "þvoðu trog og mjólkursíu, einn datt nið´rí elfina og eftir urðu níu" osfv. þegar ég svo eignaðist börn, þá komu "negrastrákarnir"aftur út og ég vitaskuld keypti bókina og söng þetta fyrir krakkana. Það var aldrei neitt í minum huga eitthvað  neikvætt gagnvart lituðu fólki samfara þeim flutningi, kannski vegna þess að móðir mín kenndi mér það að allir væru jafnir burtséð frá litarhætti eða skoðunum. Ég man svo sem ekki að hún segði það  beinum orðum, en hennar tal og hennar afstaða til  jafnréttist olli því að ég tel að við eigum öll að sitja við sama borð. Ég mun ævinlega vera þakklát móður minni fyrir hennar réttsýni og það sem hún gaf mér í farteskið hvað þetta varðar. Mér finnst með þessari umræðu um "negrastrákana" vera verið að ala á enn meiri fordómum, alla vega viðhalda þeim. 

Við verðum líka að passa okkur að fara ekki yfir strikið  í að  "passa"

Lýðræði á Kúbu og nagladekk :)

Nú vill Bush okkar blessaður stuðla að auknu lýðræði á Kúbu og hefur lagt fram margar tillögur hvað það varðar. Bush að stuðla að lýðræði, skyldi hann vita merkingu þess orðs. Ég er ekki viss um að minnihlutahópar í "guðs eigin landi" telji hann mikinn lýðræðissinna. Hann er tilbúin að "leyfa"góðgerðarsamtökum að gefa skólum á Kúbu tölvur,en með skilyrðum þó. Hann hefur þó ekki í hyggju að fella niður viðskiptabannið" það myndi bara styrkja kommúnistastjórnina". Hann er greinilega fullur af réttlætiskennd og lýðræðishugsjónum. Það er skelfilegt að svona maður skuli hafa slík völd eins og hann.  Einhverntíma fyrir margt löngu las ég bók sem bar nafnið "Falið vald" hún gaf manni smá innsýn í lýðræðið sem viðhefst í landi Bush og þá braut sem hann hefur fetað.

Það gladdi mig frétt sem ég heyrði frá "Reykjavíkurborg" þar sem fólk var hvatt til nota aðra kosti en nagladek þennan vetur. Í okkar bílaborg myndi það hafa marga kosti ef nagladekkjum fækkaði, þau gera lítið annað en að spæna upp malbikið og menga andrúmsloftið því ekki hefur svo mikið farið fyrir snjó né hálku veturna hér að undan. Það væri nú skemmtileg tilbreyting að fá snjókomu og jafnvel byl, svona til að minna okkur á þá árstíð sem  er.

 Það er annars með fádæmum hvað búið er að rigna. Hugsið ykkur ef þetta hefði nú verið snjórSmile

 

 


"Jeppar eða jeppar"

Það er sorglegt hvað margir af þessum stærstu og flottustu jeppum sem bruna eins og skriðdrekar um götur borgarinnar virðast vera með biluð stefnuljós, þá kýs ég nú frekar smábíl með virk ljós. WinkWinkWink

Það er ekki góð tilfinning þegar allt í einu einn þessa dreka hendist inn á akreinina fyrir framan mann algerlega að óvörum. það liggur við að bíllinn minn komist í framsæti svona jeppa svo miklu munar á stærð. Í þessu tilfelli skiptir stærðin ekki máli Grin LoL  heldur stefnuljósin, því þau eru einn af lyklum þess að komast klakklaust milli staða, lykillinn að heila ökumanna, samskiptaform götunnar þar sem allir eru lokaðir inn í bíl og ekki nema brot af þeim sem þar eru eru hugsanalesarar Smile

Svo bara rignir og rignir í henni Reykjavík. 

 

 


Blíðuveður á Austurlandi.

Það var blíður blær sem strauk kinnar mínar þegar ég steig út úr flugvélinni á Egilsstaðaflugvelli sl. föstudag. Hitinn um 15°,það var ekki að finna né sjá að komið væri fram í seinni hluta október. Mikið var nú gott að komast í rólegheitin, losna aðeins frá eilífum bílaniðinum sem aldrei linnir hvorki þar  sem ég bý eða vinn. Þetta var því alger paradís. Ég átti því góða helgi með dóttur minni og hennar fjölskyldu. Nýjasti meðlimurinn sem er mánaðargamall í dag fékk nafn þessa helgi. Grímur Daníel heitir snáðinn, sem er heldur betur pratinn og fallegur, algjör perla. Systir hans 11 ára fór með skátafélaginu út í Hjaltastað þar sem þau gerðu sér glaða daga með öllu því skemmtilega sem einkennir skátastarfið. Ég var svo heppin að fá að ná í hana þarna út eftir og gat því séð bakhlið fjallana minna á Borgarfirði í leiðinni. HeartDyrfjöll og Beinageit hnarreist að vanda trónuðu þarna í haustblíðunni. Það voru kátir krakkar sem voru að pakka  saman í Hjaltalundi þegar ég renndi þar í hlað.Happy


Helgin var liðin áður en varði og  ég komin upp í flugvél á leið suður. Það var fallegt að sjá landið úr lofti þó beri fyrir ljótan blett þar sem  "æxlið" er, en þar á ég við Kárahnjúkavirkjun og það rask sem henni fylgdi, Það er ekki hægt annað en að fá tár í augun. Það er von mín að  við látum okkur að kenningu verða þetta axarskaft. 

 


"Ópið"

Ekki var annað hægt en að veltast um af hlátri yfir frétt hjá vísi í morgun.

Þar sagði af konu einni í Kópavogi sem olli ónæði með miklum öskrum úti á svölum eftir miðnætti. Það er jú gott ráð að öskra til að losa um spennu og uppsafnaða reiði , það vitum við Smile á því höfðu þeir líka mikinn skilning lögreglumennirnir sem kvaddir voru til af nágrönnum sem ekki festu svefn vegna þessa miðnætur tónleika. Löggumennirnir buðu einfaldlega konunni í bíltúr upp í Heiðmörk þar sem hún lauk sinni aríu og gat farið  heim í bólið að sofa.

Það sem mér þótti líka skemmtilegt var að myndin  Ópið  eftir Munch var höfð með fréttinni.

 

 


Hefðbundin skilningur !!!!

Biskupinn okkar mælir fyrir frumvarpi sem segir að kirkjan standi við "hefðbundin "skilning á hjónabandi  sem sáttmála milli karls og konu. Ja há, það er ekki öðruvísi!!!!!!!!!!
Er ekki komin tími á að biskup og þeir sem með honum standa í þessu máli komi sér inn í nútímann, allavega eitthvað nær en þeir eru.

Það er einkennilegur leikur þeirra sem standa að trúmálum að hanga í bókstafnum. ( er það ekki einmitt það sem mikla gagnrýni hefur hlotið hvað snertir ýmis lönd í austri)  ég hef ekki betur heyrt.

Bókstafstrú hér og bókstafstrú þar er aldrei af hinu góða. Það er mín trú. 

Það er nú eins gott að bregða ekki út af hefðinni, það er ekki siður íslendinga, eða hvað. Huh.

Hvað hefur þetta með hefð að gera, þetta er einfaldlega réttlætismál sem á 21. öldinni ætti ekki að þurfa að þvæla um á prestastefnu ár eftir ár.

 Að mínu mati eru þetta ekkert annað en fordómar og eins og við vitum skapast fordómar af þekkingarleysi. Það ætti því að vera í skipulagi þessa hóps sem er á móti hjónabandi samkynhneigðra að víkka aðeins sjóndeildarhringinn sinn.

Ég vona svo að á næstu prestastefnu hafi þeim 40 sem styðja þetta réttlætismál vaxið ásmegin. 

Það er leitt að þessi þjóð skuli vera svo langt í fortíðinni á sumum sviðum sem raun ber vitni. 


Hrakfallir :(

Dagurinn í gær byrjaði ljómandi vel, ljómandi veður og verkefnin næg. Laugardalurinn sóttur heim í hádeginu og allt í sóma og ljóma Smile
Ég lánaði bílinn minn bíllausum ættingja sem þurfti að sinna erindum í bænum þennan dag, enda sjálfsagt. Lánið lék ekki við hann blessaðan því hann lenti í óhappi. Það var s.s. ekið á hann og litla bílpútan mín öll skökk og skæld eftir að fá á sig stóran fjölskyldubíl, afturhurðin skökk og skæld sem og dekkið. Hann er kiðfættur á öðru núna, ekki glæsilegt. Þó hann sé ökufær þarf að gæta ýtrustu varkárni við hraðahindranir, svo ég tali nú ekki um ef hola er í malbikinu, þá upphefst mikill hávaði og ískur. Bílstjórinn minn var líka í órétti svo ekki er málið glæsilegt Frown

Hann var ekki beint upplitsdjarfur þegar hann tilkynnti mér þessar hrakfallir. Þannig er nú það, það verður að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, eins og máltækið segir. 

Það verður því lítið um langferðir á næstunni á mínum skælda bíl Angry

Það er samt alltaf ljós í myrkrinu og í þessu óhappi skaðaðist enginn.

Fer austur á morgun og mér sýnist á veðurspá að sumarblíða verði á Austurlandi þessa helgi. Það er ekki að spyrja að blíðunni þarna eystra LoL

Hlakka líka til að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn, prins Warén. Mig grunar að foreldrarnir ætli að upplýsa nafnið sem þau hafa valið, núna þessa helgi........spennandi. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband