Silfraður Egill á ekki upp á pallborð kvenna........eða hvað?

Ég heyri ávæning af því í morgunútvarpinu að Silfur Egils væri  karlrembuþáttur og einhver hópur kvenna hefði neitað að koma í þáttinn á þeim forsendum. Það er eflaust rétt að karlar eru í meirihluta þeirra sem fá boð í þann þátt. Það kom einnig fram að einkennandi væri fyrir  þáttinn að fólk fengi ekki að ljúka máli sínu og það væri gjarnan talað ofan í það. Þetta er kórrétt, en því miður er þetta ekki einsdæmi því við erum með nokkra fréttamenn sem gjamma stanslaust fram í fyrir fólki og gefur því ekkert svigrúm að ljúka sínu máli, Þar má nefna Sigmar og Helga Seljan hjá ríkissjónvarpinu.

Þess háttar vinnubrögð eru ekki til sóma og niðurlæging fyrir þann sem í hlut á . Stjórnandi er ekki lengur stjórnandi því hann er svo heitur í umræðunni að hann hemur sig ekki.....sussu bía LoL Það sem gerist er einfaldlega það að maður hættir að hlusta á viðræðuþætti þar sem þessir  stjórnendur eru og er það miður því alltaf er gaman að hlusta á skoðanaskipti en,fólk verður að fá að ljúka máli sínu, það er lágmarkskrafa.

Í þættinum "Laugardagslögin" fór nú Ragnhildur líka ögn yfir strikið  hvað varðar "gamla strákinn" Smile

Hann fékk enganvegin að njóta sín gamli maðurinn, tímaleysið var svo mikið að hún var alltaf að stoppa hann af. Ekki smekklegt, fannst mér. Það sem mér þótti nú eiginlega verra var það að fá þá á skjáinn þar á eftir þá Jón Gnarr og Sigurjón. Þeir fengu vissulega sinn tíma og hafa eflaust þótt hafa merkilegri boðskap að flytja landsmönnum en 100 ára karl. Huh.

Ég verð  nú að segja fyrir mína parta, þá hefði ég viljað leyfa þeim gamla að syngja meira, hann var ern og skemmtilegur og átti meiri virðingu skilið. það er sjálfsagt ekki svo oft sem hann fær svo mikla athygli. Þetta var vægast sagt pínlegt. Mér leið illa þessar fáu mínútur þegar hún var að losa sig við hann því annað er ekki hægt að kalla það.

Það væri kannski ekki svo galið að vera með vikulegan þátt í sjónvarpinu þar sem  eldri borgarar fá að vera í sviðsljósinu. Þetta er líka miðill fyrir þá og eldri borgurum fer alltaf fjölgandi svo það má alveg taka meira tillit til þeirra hvað dagskrárgerð varðar. 

 


Athyglin á Guðna.........

Guðni Ágústsson fær mikla athygli þessa  dagana. Ekki að undra eftir þær yfirlýsingar sem hann hefur haft og þá kynningu sem er samfara bókinni góðu, bókinni sem segir okkur söguna eins og hún í raun gerðist. Það er nefnilega það. Sannleikann má s.s. finna þar. Það er merkilegt að menn eins og hann sem tala um heiðarleika  skuli þá ekki vera sjálfum sér samkvæmir og tjái sig þegar eitthvað kemur upp, á þeim tíma sem það gerist. Það má nefna ótal dæmi en ofarlega er í huga "sukk"þeirra Halldórs og Davíðs sem Guðna greinilega líkaði miður vel, eftir því sem fram kemur nú en hafði ekki kjark til að sporna á móti. Það er mikið á sig lagt til að halda völdum, svo ekki sé meira sagt.

Stjórnmálamenn eiga að mínu viti að hafa þá rögg og heiðarleika til að bera að falla ekki í meðvirkni með forystu sinni og sætta sig við ef þeir fara yfir strikið, sem of algengt er. Þeir eru ekki heilagir þessir prelátar þó formenn séu, en það mætti nú samt oft halda að svo sé. Þeir fáu aðilar sem risið hafa upp og talað á móti formönnum sínum, haft aðra skoðun á málum eru einfaldlega settir út í kuldann. Er það eðlilegt ? Samrýmist það því sem við flokkum undir lýðræði? Nei , það gerir það sannarlega ekki.

Guðni er eflaust með góðan sprett í þessari bók, það ætla ég ekki að efa, en hvernig á að treysta manni sem ekki getur staðið upp á stundum þegar honum er misboðið og verður að senda frá sér bók til að tala út og vera hreinskilin. Ekki pólitíkus sem hugnast mér, það er á hreinu. 


Gellivör eða Flumbra.

Þessi  hljóðlátu tröll urðu á vegi mínum  í dag. Þarna  kúrðu  þau í hrauninu  og lögðu kinn við kinn, kannski  voru þau að leita eftir yl því þarna var hvasst og kuldanepja.

Það gerði ferðina mína í dag mun eftirminnilegri að hafa rekist á þetta tröllapar. 

 

SA400004


Tók með mér snjóinn :)

Er ekki farið að mugga i henni ReykjavíkSmile

Það er sannarlega gleðilegt. það er svo skrýtið að það fyllir mig orku og athafnagleði þegar fer að snjóa og vetur konungur vitjar okkar. Eins og kom fram í pistli gærdagsins var ég á Egilsstöðum í gær og þar var sannarlega vetrarveður. Krakkarnir kátir að geta farið að renna sér á sleðum og þotum. Ég hef líka tekið eftir því í mínu hverfi þegar snjóar  þá flykkjast börnin út að leika sér, þau verða glöð og kát að fá þessa tilbreytingu frá endalausri rigningu og sudda. Kannski er það barnið í mér sem verður glaðast þegar snjórinn kemur Smile við megum ekki gleyma að í okkur öllum blundar barnið. Það er voða gott að gefa því lausan tauminn og láta eftir sér að njóta. Nú ætla ég að fara út fyrir bæinn og komast í kyrrð og þögn, ganga um og finna svalann í loftinu. Gaman hefði nú verið að geta rennt sér á sleða eða byggt lítið snjóhúsSmile en ég náði ekki að taka svo mikinn snjó með mér að austan í gær, því er nú ver LoL þetta verður að duga í bili.

Ég vona að þið sem þetta lesið njótið þess líka að fá smá föl yfir .


Fagra Ísland

Hann heilsaði mér snemma í morgun hann "tugli" þegar ég ók sem leið liggur áleiðis frá  Hafnarfirði út á flugvöll. Það sindraði á sjóinn í höfninni af geislunum frá honumSmile  ég varð að passa mig  við aksturinn því hann fangaði svo hugann, svo glæsilegur var hann.

Vélin fór í loftið með smá látum því töluverður vindur var í  loftinu yfir borginni. Þegar komið var nokkuð áleiðis varð mér litið út um glugga vélarinnar og blasti þá við mér dásamleg sýn, tunglið  á himni skær og bjartur og landið snævi þakið. Þetta var eins og ævintýri. Gluggi vélarinnar var eins og rammi um þessa fögru sýn, þennan mikla bláma sem er þegar snjór þekur landið og ekkert annað er að trufla. Ég átti þá ósk heitasta að geta fangað þetta á filmu en það var ekki hægt, allavega ekki með þá tækni sem mín vél hefur upp á að bjóða. Við lentum svo á Egst. í dásamlegu vetrarveðri, frosti og snjókomu. Ég andaði djúpt að mér þegar ég kom út úr vélinni og naut þess í botn að skynja loks "árstíð" það er jú kominn vetur og við búum á Íslandi, ekki alveg sú tilfinning sem ég hef fundið að undan.

Þetta var góður dagur á Egilsstöðum, gat hitt dóttur mína, mömmu,  barnabörnin og setið málþingið sem mér bauðst  að taka þátt í. Það er ótrúlegt hverju hægt er að áorka á stuttum tíma Smile jólaundirbúningur  setti mark sitt á heimili dóttur minnar, hún s.s. sat við útsaum á gluggatjöldum fyrir eldhúsið sitt og   er ég kom til hennar að málþingi loknu var verið að baka mömmukökurSmile það var samt ekki stressinu fyrir að fara á heimilinu og gott að finna rólegheitin sem geta verið þó mörg járn séu í eldi.

Málþingið var verulega skemmtilegt, gaman að hitta þetta fólk sem búið er að vinna að verkalýðsmálum í fjórðungnum lengi, mislengi þó. Þarna vorum við líka sem erum flutt í burtu, en áttum okkar spretti á sínum tíma. Okkur langar að ná sem mestu af heimildum sem eru geymdar í hugum manna, þar á ég við atburði sem hafa átt sér stað  en ekki eru skráðar í fundargerðabækur félaganna. Skemmtilegar uppákomur, stríðsástand og allt þar á milli. Hann leið fljótt þessi dagur og ég komin á leið suður aftur áður en ég veit af, kl er 18:00 ............það er alltaf einhver söknuður í brjóstinu þegar Austurlandið  er yfirgefið, það er sjálfsagt þessi sveitamaður sem í mér býr, hann er  svo ráðríkur Wink 

Þó dásemd landsins hafi birst mér á austurleið þennan  morgun þá toppaði það sem augað nam úr glugga vélarinnar þetta síðdegi það gjörsamleg. Þar sem heiðríkjan var alger og tunglið lýsti upp landið í myrkrinu. Þetta hef ég aldrei áður upplifað, að sjá hálendið í "myrkri" úr  svo mikilli hæð.Þetta var hreint ótrúlegt.  þökk sé "tungla" gamla. Þessi sýn var SVO falleg, SVO dásamleg að orð fá því ekki lýst. Þetta er eitthvað sem geymist í hugskoti og nærir sálina, það er ekki efi. Það var líka gott að koma til höfuðborgarinnar í kvöld  því kalt vetrarloft tók á móti mér og hélt mér í réttri árstíð, merkilegt Smile


Syngjandi í rigningunni :)

Hvað er nauðsynlegra í svona veðri en að hafa góða skapið og brosið á reiðum höndum Smile

Það er auðvelt að láta undan síga og líða með í drunganum. Það er leitt á svona dögum að mæta úrillu og daufu fólki sem lætur veðrið hafa slík áhrif á sig. Glaðlegi maðurinn sem ég mæti hvern morgun og fikrar einatt upp á einhverju að spjalla um og sendir geislandi bros var þungur á svip í morgun Frown eitthvað uml kom frá honum sem átti að heita "góðan dag"

Ég hef sannarlega ætlað mér að þessi dagur verði góður, nema hvað. Veðrið fær ekki að draga mig niður, þetta er að vísu ekki draumaveðrið mitt en þar sem ég bý á suðvestur horni landsins verð ég að taka því að veðráttan er hundleiðinleg, það er nú bara þannig, en að láta það stjórna skapinu mínu, nei takk. Með sól í hjarta og bros á vör  tek ég á móti þessari rigningu þennan föstudaginn.

Það hefði nú verið dásamlegt ef þetta hefði verið snjór. þegar ég heyrði í veðrinu í nótt vonaðist ég til að sjá hvíta jörð þegar ég liti út að morgni en við blasti drungi og bleyta. Mér varð ekki að ósk minni í þetta skiptið LoL

Ég er að fara austur í Egilsstaði í fyrramálið á málþing þar sem farið er yfir sögu verkalýðsfélaganna á Austurlandi. Þetta er fyrsti fundurinn og spennandi að sjá hvert framhaldið verður. Það stendur til að gera heimasíðu og svo vonandi í framtíðinni verður sagan skráð. 

Svo er bara að syngja í rigningunni og finna sólina í hjartanu Heart


Velferðarþjóðfélag............eða.....

Hún er köld haustnepjan þessa dagana og gott að hafa húsaskjól og yl. það eru ekki allir svo heppnir að geta sagt svo. Í velferðarþjóðfélaginu á eyjunni Íslandi er, að mér skilst hundruð manna sem ekki eiga kost á þaki yfir sig og sína. Það verður nú að segjast að eitthvað mikið hlýtur að vera að í einu þjóðfélagi þegar ástandið er orðið slíkt. Það er nöturlegt til þess að hugsa að gróðahyggja og græðgi skuli vera svo ríkjandi að ástand sem þetta skuli skapast.

Það eru ekki allir með góð laun í samfélaginu því er nú ver og ríkið er einn af þeim vinnuveitendum sem ekki sjá sóma sinn í að greiða fólki viðunnandi fyrir vinnuframlag sitt. Ég hef sjálf verið launþegi hjá ríkinu og veit því af eigin raun hvernig er að lifa af þeim launum og standa í launaviðræðum við þá sem þar ráða ríkjum. Það er ekki til að bæta sjálfsmynd neins að finna vinnu sína ekki metna að verðleikum og þurfa að lepja dauðann úr skel. Þetta þykir sjálfsagt einhverjum stórt upp í sig tekið, en hvað er annað hægt að kalla það þegar laun eru undir 200 þ. og mörg hver LANGT þar undir. Það er ekki einfalt mál að ná endunum saman með það klink í buddunni, það er deginum ljósar.

 
Ég samgleðst virkilega þeim sem eru að fá vinnuna sína metna að verðleikum og laun sem eru mannsæmandi, en það er líka stór hópur sem er að fá svimandi háar tekjur sem eru algjörlega á skjön við allt sem flokkast undir að vera "normal" bilið hjá okkur hefur breikkað svo gífurlega á liðnum árum að það nær engu tali, við erum komin með mjög  skipt þjóðfélag sem kann ekki góðri lukku að stýra. Þær launahækkanir sem hafa orðið  standast engan vegin þær hækkanir sem komið hafa á móti.

Það er þó alltaf frumskilyrði að fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið, eða hvað?

Ég kannaði það fyrir skömmu hver mín staða væri og nú er ég komin með góð laun, enda hætt hjá ríkinu Smile en þar sem ég á engan sjóð eða fasteign til að selja þá eru mér bara allar dyr lokaðar. Þegar ég var lágtekjumanneskja náðu endar ekki saman og þá fór að myndast skuldahali, sem svo margir kannast við. Bankinn minn ljáði mér vissulega lán en það er ekki að sjá að borgað sé af þessum lánum því ekki lækkar höfuðstóllinn sem nokkru nemi, vextir og verðbætur sjá fyrir því. Þetta eru tvö lán svo mér datt í hug að slá þeim saman og lengja tímann til að létta á skuldabyrðinni og geta eitthvað notið þess að hafa loksins góð laun. Það var ekkert mál frá hendi bankans en ég varð að borga aftur öll þau gjöld sem ég hafði gert við upphaf lánanna. Ég þakkaði gott boð  en spurði svo hvernig það væri ef lánstími þeirra beggja væri lengdur. Það kostaði X upphæð á hvort lán. Ég þakkaði aftur pent og bankinn fær víst að ræna mig eitthvað áfram, því þetta kalla ég ekkert annað en rán.Devil Þannig er nú það.

Það er ekki góð tilfinning að njörvaður niður og fastur í klafa bankakerfisins.Þeir græða og græða en ekkert af því skilar sér til okkar sem borgum þeim þá okurvexti sem í boði eru. Ég er á sama reit og svo margir aðrir sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð og eiga ekkert lausafé. Ég er þó betur sett en margur annar þar sem ég hef húsnæði og þarf ekki að hýrast inni á vinum eða ættingjum eða þá sofa í bílnum mínum eins og eitthvað er um að fólk þurfi að gera. Velferðarþjóðfélag, já, þetta er merkilegt orð, orð sem mér þykir ekki alltaf passa við þjóðfélagið okkar því kannski legg ég annan skilning í orðið "velferð" og þá kemur mér í hug gamla fólkið okkar en það er nú efni í annan pistil. 

Hún var sannarlega falleg birtan í ljósaskiptunum í kvöld, skreytt af tungla karlinum sem ljómaði á himninum, meira en hálffullur Smile hann er flottur Heart


"Sauðdrukkinn úti í hrauni lá ......."

"Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas og hraut eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu"  Þannig sönglaði Megas um skáldið frá Hrauni. Þessi kveðskapur átti nú ekki upp á pallborðið hjá öllum og þótti mönnum að skáldinu vegið. Ég held nú að Megas hafi fengið fyrirgefningu þessa fólks  í dag. Þetta er snilld og lýsir eins og svo margir textar hans þvílíku hugarflugi og frásagnarsnilld.Þessi kveðlingur kemur mér ætíð í hug þegar minnst er á Jónas. Það er skemmtileg tilviljun að fyrir fáum vikum las ég bókina "Fáfræðin" eftir tékkann Kundera. Ein sögupersónan, sem flúið hafði land til Danmerkur og kvænst þar danskri konu, rifjar upp sögu sem kona hans hafði sagt honum. Það er sagan um dauða Jónasar Hallgrímssonar, sem hann kallar "rómantískan skáldjöfur og mikinn baráttumann fyrir sjálfstæði Íslands" hvernig hann síðan vitjaði "íslensks iðnjöfurs" og bað um að bein sín yrðu flutt heim, þar sem hann var jarðsettur í Kaupmannahöfn. "Beinin mín hafa hvílt i útlenskri mold,í landi óvinarins, í hundrað ár. Er nú ekki orðið tímabært að þau komist aftur heim til  hinnar frjálsu Íþöku sinnar" Svo er sagan rakin þegar iðnjöfurinn fer að sækja beinin og stendur frammi fyrir því að skáldið hafði verið jarðsett meðal fátæklinga og einungis númer að fara eftir. Þegar svo gröfin var rofin voru þar nokkrar beinagrindur og úr vöndu að ráða. Það hafi svo verið mál manna að hinn íslenski iðnjöfur hafi haft með sér bein dansks slátrara  en ekki bein skáldsins til Íslands.          

"Bein Jónasar hvíla s.s. ennþá í tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá Íþöku hans, í óvinalandinu" Þeim hjónum þótti sagan fyndin  og af henni mætti auðveldlega draga siðferðislega ályktun: fólk kærir sig kollótt um hvar bein dauðs manns liggja. Mér þótti gaman að Kundera skyldi flétta sögu Jónasar, eða hluta hennar, inn í sögu sína en bókin fjallar jú um þá sem snúa heim aftur eftir langa fjarveru, eins og Ódysseifur forðum til sinnar Íþöku. Á eftir að lesa meira eftir tékkann Kundera. Nú eru Bókatíðindi 2007 komin inn á hvert heimili, það er alltaf spennandi að glugga í þá skruddu SmileÞað er ein af þessum föstu skemmtilegu vísan á að jólin séu á næsta leiti þegar tíðindin blessuð eru komin í póstkassann.

 


Komin aftur á kreik :)

Þá er ég komin aftur eftir smá hvíld. Það hefur verið svo annasamt hjá mér að bloggið varð bara að víkja. Það er alltaf þessi spurnig með að velja og hafna í þessu lífi. Þá dettur mér í hug valið sem við mennirnir höfum varðandi þær breytingar sem eru að verða á andrúmslofti jarðarinnar. Þar höfum við sannarlega val með hvernig áframhaldið verður, en það virðist samt langt í land að fólk almennt skynji hversu framarlega við erum komin á bjargbrúnina. Það er bara anað áfram og lítt skeytt um afleiðingarnar.Það er sorglegt að heyra talað um hvað það sé spennandi hvað ísinn á norðurskautinu bráðni hratt og þarna verði greið siglingarleið að sumri til. Sú vitsmunavera sem  maðurinn telst vera,virðist ekki alltaf standa undir því merki, því er nú ver og miður.Það er bara sannað mál að þeir þættir sem valda loftslagsbreytingunum eru ekki bara af náttúrulegum ástæðum, við eigum þar alltof stóran þátt. Við sem búum hér rétt sunnan við heimskautsbaug erum farin að framleiða snjó og farið er að tala um að byggja skíðahöll, eða eitthvað slíkt. Það getur allt verið gott og gilt svona á þeim stöðum þar sem snjór er lítt þekktur en við sem erum komin á miðjan aldur sjáum þá miklu breytingu sem orðið hefur á veðráttu og það er sko ekkert lítið. Það eru jú alltaf breytingar í gegn um aldir á veðráttu það vitum við, en sá hraði sem orðið hefur nú er mikill og ef við viljum opna augun og líta hlutlaust á, þá hefur vissulega heldur betur bæst við óþverrann sem úðað er út í andrúmsloftið dag hvern. Þannig er nú bara það. Hvernig viljum við framtíðarveröld barna og barnabarna? Viljum við ekki öll innst inni að loftið sé tært og nægjanlegt vatn sé? Jú örugglega, en við verðum líka að leggja eitthvað af mörkum til þess að svo verði. Það er nú bara þannig í dag, á Íslandi, þegar langvarandi hiti og þurrkar hafa herjað, þá eru landsvæði sem ekki hafa haft nægjanlegt vatn. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að sú auðlind sem vatnið er sé eitthvað sem aldrei þrýtur. Það er von mín að fólk um allan heim vakni til vitundar um þá vá sem loftlagsbreytingarnar hafa í för með sér og beiti þeim þrýstingi sem þarf til að stjórnvöld vakni af sínum draumi og taki með "alvöru" á málum sem þessu.

Ég er annars að lesa mjög skemmtilega bók eftir Kafka, sú heitir "Ameríka" sérlega skemmtileg,fangar hugann á fyrstu síðu :) Fékk brennandi áhuga að lesa eitthvað eftir Kafka eftir að hafa séð "Hamskiptin" í Þóðleikhúsinu. Frábær sýning.


Vítisenglar og vopnabrak.

Það er skrýtin afstaða forráðamanna þessa þjóðfélags. Klámráðstefna er bönnuð og vítisenglar eru óæskilegir en ráðabrugg vopnaframleiðanda er eitthvað sem ekki er stuggað við. Þegar friðarsúla Yoko var tendruð í Viðey lýsti þáverandi borgarstjóri yfir stuðningi við frelsi og friðarmál......allavega friðarmál. Hvað svo....hvað er eiginlega í gangi í haus þeirra sem eru í forsvari okkar, hvernig geta þeir komið fram og lýst yfir stuðningi við eitthvað sem tengist friði og réttlæti og hoppað síðan yfir línuna og sett lóð á vogarskál vopnabraskara  Ég er ekki að sjá hvernig við sem borgarar eigum að geta metið trúverðugheit svona manna. Þjóðfélagið logar þegar talað er um klám en þegar  um vopnabrask er að ræða  Þá bara...bara.Punktur.Hvar er borgarstjóri félagshyggjunnar? Eða er það kannski ekki félagshyggja sem að baki býr. það er skrýtið að standa frammi fyrir því að skilja hvorki upp né niður í gangi mála hvað varðar stefnumótun og skilyrði þeirra sem  stjórna. Mér þykir það óneytanlega erfið staða. Þeir sem komu þessu fólki í áhrifastöðu með atkvæði sínu eiga skilið heiðarleika hvað varðar vinnubrögð.

Ég nenni ekki að skrifa meira, er einfaldlega þreytt á öllu þessu innihaldslausa  brambolti sem er þjóðfélaginu og skilar engu nema leiða til þegnanna. Ætla út í sveit á morgun og finna smá frið og ró svo ég hafi orku í næstu viku í borginni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband