Endalaust skítkast.

Er ekki komin tími til að slíðra sverð og fara að gera eitthvað af viti. Það er endalaust skítkast milli manna i þessari blessuðu borgarstjórn. Mér finnst nú að menn verði aðeins að gæta tungu sinnar og ekki láta reiði og sárindi algerlega stjórna málflutningi sínum.( heyrði í einni sjálfstæðu konunni úr fyrrum meirihluta þar sem hún lét gamminn geysa í borgarstjórn í dag  og sagði m.a."við sjáum sko ekkert eftir þér Björn Ingi") Æ,æ,æ.....ekki beint málefnanlegur flutningur. Það vekur ekki traust að heyra slíkt og vantar eitthvað á þroskann heyrist mér. Það vill oft brenna við að þeir fullorðnu eru ekki betri en óvitar í sandkassaleik og leitt að þeir skuli vera í forsvari fyrir almenning. Ég held sannarlega að það mætti nýta tímann betur þarna á þessu "heimili" Smile

Það verður víst aldrei hægt að kryfja þetta pínlega mál sem upp kom í borgarstjórn til mergjar og mér finnst fólk setja sig niður þegar farið er að vitna m.a. í sms sendingar. Þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð kemur það mér fyrir sjónir að sá einstaklingur sem það gerir er einungis að reyna að upphefja sig og leiða athyglina að öðru, sá einstaklingur er Björn Ingi. Ég held að hollt væri fyrir alla aðila að líta í eigin barm og hreinsa til þar, (áður en farið er að henda skít í aðra). Það er öllum hollt.

Hann var vissulega  ekki í öfundsverðri stöðu fráfarandi borgarstjóri í Kastljósinu þar sem hann mætti Bjarna Ármannssyni. Það er svo annað mál, þetta með minnismiðann. Mér þykir það nú fremur hallærislegt allt í kring um  þann fágæta miða og auðvitað stendur bara orð á móti orði.

Nú þarf að komast á ró í borgarstjórn og þeir sem þar sitja að vinna sína vinnu. Ég bíð sko spennt að sjá hvort þau standa við gefnar yfirlýsingar, einkum og sér í lagi Svandís. Það er nefnilega ekki nóg að tala, við viljum líka sjá að orðum sé fylgt eftir.

Þetta var góður dagur með yndislegu haustveðri hér í borginni.


Haustið.

Það var nú fremur haustlegt í borginni í dag og Esjan orðin grá í kollinn. Það var samt verulega hressandi að vera úti í kulinu, tók smá sprett í hádeginu, ekki veitir af fyrir skrifstofublækur að hreyfa stirða limi þegar færi gefst. Þá er gott að vera í nálægð Laugardalsins, þar er skjól frá bílum og því kraðaki. Nú liggur lauf trjánna í þykkum mottum yfir,sérlega ber mikið á laufum aspanna sem ekki er að undra svo hávaxnar eru þær, svo er flott að sjá reyniviðinn með alla sína berjaklasa á annars nöktum greinum.

Það er komið haust á Íslandi og farið að snugga að, annars  finnst mér alltaf jafn merkilegt hversu miklu munar oft á veðri á þessu litla skeri sem eyjan okkar er. Það verður spennandi ef komin verður snjór á Austurlandi um næstu helgi, ég er einmitt á leið þangað Heart

Vonandi fáum við líka snjó hér sunnanlands þennan vetur, allavega svo hægt verði að komast á skíði Smile


Abba á Spænsku.

Í gær, á ferð minni suður með sjó var ég að hlusta á útvarpið. Þau Felix og Guðrún voru með þáttinn sinn og þeim hafði borist plata með Abba þar sem sungið var á Spænsku. Þau spiluðu tvö lög "thank you for the music og dancing Queen" það verð ég að segja að skrambi var það nú flott hjám. Spænskan er fallegt tungumál og Agneta syngur eins og engill.

Það var annað sem ég heyrði í útvarpinu sem mér þótti afar furðulegt. Ég s.s. datt inn í þátt þar sem m.a. Hlín Agnars, Davíð Þór, Eva María voru þáttakendur í. Ég er nú ekki alveg með í hausnum nafn þáttarstjórnandans en minnir þá hann heita Karl. Þetta er hinn skemmtilegasti þáttur og m.a. voru þau að spreyta sig á merkingu orða sem notuð eru í daglegu tali og fólk almennt ekki að pæla svo nákvæmlega  í merkingu og samsetningu. Eitt þessara orða merkti "kiðfættur" einhver sagði "hjólbeinóttur" og sagði stjórnandinn að það mætti ekki oft á milli sjá hvort fólk væri hjólbeinótt eða kiðfætt og gaf rétt fyrir.Ég varð satt að segja undrandi, því sá munur sem er á kiðfættum og hjólbeinóttum einstaklingum þykir mér  nú töluverður. Ég átti mjög hjólbeinóttan frænda og við göntuðumst með það krakkarnir að það væri eins og tunna hefði verið milli fóta hans :) kiðfætt er í mínum huga andstaðan eða þegar hnén liggja saman, þetta var líka kallað að vera nágengur.

Þannig var  þetta nú fyrir austan :)

Það var annars yndislegt við suðurlandið í gær, töluvert brim sem var glæsilegt á að líta og friðsælt í litlu þorpunum sem kúra þarna. 


"Tár bros og takkaskór"

Það má til sannsvegar færa, tár framsóknar,  bros hins nýja meirihluta og takkaskórnir  á fótum fráfarandi, sem ekki kunnu tæknina að beita þeim rétt:) það er alltaf hægt að leika sér að líkindum :) Staðan  er samt sem áður sú að nú fer í hönd athyglisverð samvinna sem vert er að fylgjast með.

Ég horfi til þess að Svandís Svavarsdóttir verði áfram sú skelegga og málefnanlega sem hún hefur verið til þessa. Hún er ekki öfundsverð í sínu hlutskipti núna að þurfa að "sættast" á framsóknarmanninn í þessu samstarfi. Við sem hana styðjum verðum ekki sátt ef hún fer að draga í land og fara í einhvern leik sem svo gjarnan  er leikin þegar verið er að "reyna" að ná fram því sem maður vill. Ég treysti því að þarna sé kona sem er það sem hún segist vera.

Það var sannarlega margt annað  í fréttum dagsins sem var gleðilegt. Ég vil hér með óska Al Gore til hamningju og eins vil ég óska Vopnfirðingum til hamingju .

Þetta tvennt, Al Gore og Vopnfirðingar er kannski á skjön, en þó ekki. Í báðum þessa tilvika erum við í kjarnanum. Það er hann sem skipir máli, það er hann sem við verðum að hlúa að , það er hann sem segir okkur hver framtíðin verður. Hvað viljum við? Viljum við mengun? Nei, segja allir. Auðvitað viljum við ekki mengun ,en hversu tilbúin erum við að taka þátt í því að menga EKKI. Það er málið.

Það er bara frábært að sú vinnsla sem fram fer á Vopnafirði (í frystihúsinu)skuli skila því sem raun ber vitni. Það er ekki oft sem jákvæðar fréttir berast ú r sjávarþorpum landsins. Til hamingju með það Vopnfirðingar, til hamingju Einar Víglundsson. ég ætla að  þú eigir þarna hlut að.

Þetta gladdi mitt landsbyggðarhjarta, það verð ég að segja :) 

 


Hvar værum við án Framsóknar :)

Það er sem ég segi. Framsóknarflokkurinn, þetta litla kóð hefur lykil á mörgum stöðum. Það sannast best núna þegar Björn Ingi hefur sagt skilið við íhaldið og hoppað yfir á hinn kantinn:) Það er nú ekki annað hægt en að hlæja að  þessum leikþætti framsóknarmanna og vel skiljanlegt að sjálfstæðismenn séu svekktir ef  handsal  hefur verið milli þeirra Björns og Vilhj. í gær um áframhald samstarfsins. Eins og þetta kemur fyrir sjónir er framsóknarmaðurinn ekki alveg að koma fram að heilindum og hagar segli eftir vindi. Meiri skrípaleikurinn alltsaman.

Ég er nú samt ánægð að minnihlutinn er orðin að meirihluta, hefði samt viljað að framsóknarmaðurinn Björn Ingi væri utanborðs, ég einfaldlega treysti honum ekki, er skíthrædd að ekki þurfi mikið að koma uppá svo hann hlaupi ekki útundan sér.

Ég hef tröllatrú á þér Svandís, þú ert búin að standa þig eins og hetja . Líkti Dagur þér ekki við ísbrjót eða eitthvað álíka. Það er kraftur í þeim og þ.a.l. ekki galin samlíking.

Svo er bara að sjá hver framvindan verður og vissulega verðum við að halda vöku okkar og fylgjast grannt með. 


Fjörugur fundur :)

Það var heldur betur tekist á í dag hjá borgarstjórn. Svandís Svavarsdóttir lét ekki sitt eftir liggja, hún á engan sinn líkan þessi kona, er bara aldeilis frábær. Ég ber mikla virðingu fyrir henni. Það þarf einmitt svona manneskju til að halda vörð um hagsmuni okkar.

Það verður fróðlegt að vita hvort  einhver sér sóma sinn í að segja af  sér, er ekki komin tími á það í íslenskri pólitík að menn víkji þegar þeir brjóta af sér. Það þykir sjálfsagður hlutur í ýmsum nágrannalöndum okkar, löndum sem við gjarnan  berum okkur við. Það hljóta að vera neikvæð skilaboð út í samfélagið ef fólk í opinberu stafi brýtur lög og reglur en situr áfram eins og ekkert hafi í skorist.

 


Mér er misboðið.

Það er sorglegt að fylgjast með umræðu orkumála þessa daga. Ekki viljum við að orkulindir okkar lendi á hendur einkaaðila, það held ég að væri ekki farsælt. Við megum ekki gleyma að þjóðin bjó eitt sinn við einokun og í þau spor langar okkur væntanlega ekki. Við verðum að vera vökul og gagnrýnin á það sem fulltrúar okkar hvort heldur er á alþingi eða borgarstjórn eru að gera. Það er ekki  ásættanlegt að lítill hópur "karla" ráðskist með almannafé sem sitt eigið. Það er ekki leikur að sitja í nefndum og ráðum, það er ekki matador eða hvað? Mér þykir gott að vita Svandísi Svavarsdóttur þarna í nálægð því hún er skelegg, málefnaleg og talar hreint út,   ekki undir rós eins og svo mörgum stjórnmálamönnum hættir til. Stundum vildi ég geta sett á þá villupúka svo illskiljanlegir geta þeir verið :) Þetta er allt  hið dularfyllsta mál. Borgarstjórinn ekki alveg með það á hreinu hvað fram fer á fundum og vísar bara á mann og annan til að svara fyrir. Ég verð nú að segja að það eykur ekki traust mitt að hlusta á preláta sjálfstæðis og framsóknar þessa dagana, þeir segja eitt í dag og annað á morgun. slíkt og þvílíkt. Það verður fróðlegt að vita hvort Björn Ingi tekur stjórnarformannssætið sem hann horfir svo mikið til. Það er annars stórmerkilegt með framsóknarmenn (sem hurfu nær i síðustu kosningum) hvað þeir eru lunknir að pota sér í áhrifastöður í þjóðfélaginu og sitja margir fast og lengi. Það er með fádæmum, flokkur með svo lítið fylgi á bak við sig. Guðni ætlar nú að styðja við bakið á Birni Inga, ekki veitir vist af. Ég verð nú samt að segja að ekki þótti mér Guðni tala frá hjartanu þegar hann var spurður þessa, en það er nú önnur saga :) "Hún er skrýtin tík þessi pólitík" sagði maðurinn forðum :) Það er sko ekki hægt annað en taka undir það.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband