Er langlundargeðið að fara með okkur til ........ ?

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja, svo margt leitar á hugann þessa dagana. Mér finnst eins og allt sé stopp. Almenningur kom loks út úr skápnum og lét til sín taka, en svo þegar þessi blessuð stjórn sem nú situr var sest á valdastól, var eins og allur máttur væri þorrinn úr fólki. Hvað veldur? Við erum ekki sjálfum okkur samkvæm ef við bara segjum já og amen núna. Það er langt í land og að mínu viti ekki komin í höfn öll þau áherslumál sem sett voru á oddinn. Við höfum jú náð vissum áfanga en megum ekki láta deigan síga og hætta þegar hæst lætur. Það verður að hamra járnið meðan það er heitt, það er nú bara þannig.

Ég horfði á viðtal Sigmars í kvöld við Davíð nokkurn Oddsson. Þetta var skondið viðtal, svo ekki sé meira sagt. Dabbi vill allt í einu að hugsað sé um litla manninn. Ætli það sé hinn sami litli maður og hann tjáði sig forðum um í viðtali varðandi mæðrastyrksnefnd, ellegar þá sem hafa notfært sér matargjafir. Þið verðið að fyrirgefa en mér er verulega misboðið þegar menn haga sér svona.Menn sem vita varla aura sinna tal og hafa margir hverjir aldrei þurft að hafa áhyggjur af að eiga til næstu máltíðar, eru að belgja sig út og gefa yfirlýsingar. Bara....fussum...svei.

Við verðum að opna augun og sjá hvað er að gerast hér í okkar fyrrum velferðarþjóðfélagi. Fjöldi manna hefur misst vinnuna sína og á varla til hnífs og skeiðar. þannig er það. Ég veit að það er ekki auðvelt fyrir þann sem vinnu hefur og getur framfleytt sér, þó naumt sé hjá mörgum, að setja sig í spor þeirra  sem enga von eygja og vita ekkert hvert þeir eig að snúa sér. Mér hefur þessa dagana verið hugsað til þorpanna úti á landi þar sem mannlegu samskiptin eru meiri og öll persónuleg þjónusta einnig. Nú er ég kannski að alhæfa, en ég er líka að tala af eigin reynslu. 

Ef við viljum breytingu þá er lag, NÚNA. Ég, persónulega er orðin örþreytt á flokkræði liðinna ára og horfi því með von til stjórnlagaþings og þeirra breytinga sem að það gæti áorkað.

"Hvað tefur þig bróðir"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hamra járnið á meðan það er heitt...og örugglega er það rauðglóandi og hentungt til mótunar núna....en hver er þín tillaga....hvað leggur þú til að verði gert...ertu með uppástungu...eða á bara að mótmæta til að mótmæla...humm...bara svona smá vangaveltur hjá mér :)

Gunna 25.2.2009 kl. 22:48

2 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Sæl Gunna. Hvaða Gunna sem þú ert, þekki nokkrar. Mótmæli snúast ekki um að vera tilbúin með einhverja lausn á einhverju tilteknu ranglæti. Við getum fundið fyrir margvíslegu ranglæti þó svo við höfum ekki lausnina í handraðanum. Ég held að staða þjóðarinnar til breytinga hafi aldrei verið betri en einmitt núna. ég hef m.a.verið að vinna í hópi sem stendur að Borgarafundunum og ég held ég geti fullyrt að þeir hafa þjappað fólki saman og opnað umræðu sem annars hefði farið fram við eldhúsborðið ellegar á facebook. Það að almenningur skuli hafa fjölmennt bæði á þessa fundi og einnig á mótmælin á Austurvelli segir okkur það eitt að fólk vill breytingar, fólk er óánægt með vissa hluti og mótmælir því, það er eðlilegasti hlutur í heimi. Það er ekki þar með sagt að allir hafi verið með lausnir í vasanum. Þetta með að rukka alltaf um lausnir og tillögur ef einhver andmælir er voða mikið í anda sjálfstæðismanna, eða þeirra sem kallast "sófafólkið" fólki sem þykir betra að þusa í gegn um tölvuna en að taka raunverulega þátt í hlutunum. Þar er mikill munur á. Þeir sem staðið hafa vaktina og mótmælt voru bara ekki reiðubúnir að kyssa á vöndinn. Ég vona að þetta svari einhverju af þínum "vangaveltum" Gunna ???

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 27.2.2009 kl. 22:18

3 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Heil og sæl vinkona! Gott að sjá pistil eftir þig komin á vefinn.  Já það er sorglegt hvernig komi er fyrir okkur sem þjóð.  Það var lítill vandi að borga niður skuldir á útrásartímum, hækka eiginlaun, og herða skatta á þá sem minnst höfðu.  Vonandi er þetta liðin tíð.  Annars er ekki gott að segja hvað kemur upp úr kjörkössunum. Þá kemur í ljós hvort þjóðin hefur gullfiska minni.

Ég vona bara að það komi í ljós hverjir fóru fram úr sér á þessum tímum, og þeir látnir skila góssinu til þjóðarinnar. Það er verst með lífeyrissjóðina, þeir voru ekki ríkistryggðir eins og sjálfstæðismaður sagði mér í einhverjum kosningunum að þeir væru svell tryggðir..

Hafðu það ætíð sem best Elsku Ásta mín. Kærleikur og ljós til þín úr ferskleikanum hér fyrir norðan..

Sigríður B Svavarsdóttir, 27.2.2009 kl. 23:25

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Ásta mín

Frábær pistill hjá þér. Nú er lag og tími til kominn að moka flórinn.

Vertu Guði falin

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.3.2009 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband