11.2.2008 | 21:27
Fóður fyrir Spaugstofuna :)
Ekki var hann trúverðugur oddviti sjálfstæðismanna í dag þegar hann tók á móti fjölmiðlafólki í sinni einu sönnu "Valhöll". Þarna sat hann karlskinnið eins og Palli einn í heiminum meðan félagar hans laumuðu sér niður í kjallara með lafandi skottið, til að komast hjá því að svara fréttamönnum. Það er með fádæmum hvað hægt er að leggja sig lágt og gera sig að miklum kjánum. Það er líka með fádæmum að enginn í þessum fríða hópi skuli hafa þá siðferðiskennd til að bera að segja stopp, hingað og ekki lengra. Ég skal aldrei trúa því, hvað sem hver segir að eining sé í þessum hóp, sú eining sem þau guma svo af er einungis á yfirborðinu, það held ég flestum sé nokkuð ljóst. Það var barasta aumkunarvert að horfa á karlangann hann Villa í dag,reyna að klóra yfir eigin gjörðir með sömu tuggunni aftur og aftur, engu bitastæðu, engu sem nokkur heilvita maður lætur sér til hugar koma að kaupa. Hann ætti að sjá sóma sinn í því að "axla ábyrgð" í þeim skilningi sem heilbrigð skynsemi manna segir og það er að sýna eigið frumkvæði og segja sig frá sinni stöðu. Ég er mjög slegin yfir því hversu djúpt íhaldið er sokkið í sinni siðblindu. Slæmt taldi ég það vera en "fyrr má nú rota en dauðrota"
Borgarstjórinn blessaður mætir svo í Kastljósi og tuggast sífellt á "að láta verkin tala" halelúja :)
það er bara beðið eftir logni svo það sé hægt, að hans mati. Hver skóp allan þann vind og öldurót sem á undan er gengið, ég held hann ætti að hugsa um það blessaður.
Spaugstofa hefur haft úr nægu að moða undanfarnar vikur og ekki að sjá að lát sé á, þökk sé meirihlutanum í borgarstjórn sem nú situr.
Framagjarn hópur sem vantar alla framsýni og hugrekki, því það er ekkert annað en heigulsháttur að leggjast með á þær árar sem róið er með nú. Það er hægt að ganga of langt til að þóknast "flokknum" það getur aldrei kallast víðsýnn maður sem lætur flokksaga stjórna gerðum sínum, sá maður hlýtur að eiga erfitt með að vera sjálfum sér samkvæmur.
Þó þetta sé vissulega afar sorglegt hlakka ég nú samt til að sjá hvernig spaugararnir okkar taka á þessu n.k.laugardag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.