21.11.2007 | 19:00
Velferðarþjóðfélag............eða.....
Hún er köld haustnepjan þessa dagana og gott að hafa húsaskjól og yl. það eru ekki allir svo heppnir að geta sagt svo. Í velferðarþjóðfélaginu á eyjunni Íslandi er, að mér skilst hundruð manna sem ekki eiga kost á þaki yfir sig og sína. Það verður nú að segjast að eitthvað mikið hlýtur að vera að í einu þjóðfélagi þegar ástandið er orðið slíkt. Það er nöturlegt til þess að hugsa að gróðahyggja og græðgi skuli vera svo ríkjandi að ástand sem þetta skuli skapast.
Það eru ekki allir með góð laun í samfélaginu því er nú ver og ríkið er einn af þeim vinnuveitendum sem ekki sjá sóma sinn í að greiða fólki viðunnandi fyrir vinnuframlag sitt. Ég hef sjálf verið launþegi hjá ríkinu og veit því af eigin raun hvernig er að lifa af þeim launum og standa í launaviðræðum við þá sem þar ráða ríkjum. Það er ekki til að bæta sjálfsmynd neins að finna vinnu sína ekki metna að verðleikum og þurfa að lepja dauðann úr skel. Þetta þykir sjálfsagt einhverjum stórt upp í sig tekið, en hvað er annað hægt að kalla það þegar laun eru undir 200 þ. og mörg hver LANGT þar undir. Það er ekki einfalt mál að ná endunum saman með það klink í buddunni, það er deginum ljósar.
Ég samgleðst virkilega þeim sem eru að fá vinnuna sína metna að verðleikum og laun sem eru mannsæmandi, en það er líka stór hópur sem er að fá svimandi háar tekjur sem eru algjörlega á skjön við allt sem flokkast undir að vera "normal" bilið hjá okkur hefur breikkað svo gífurlega á liðnum árum að það nær engu tali, við erum komin með mjög skipt þjóðfélag sem kann ekki góðri lukku að stýra. Þær launahækkanir sem hafa orðið standast engan vegin þær hækkanir sem komið hafa á móti.
Það er þó alltaf frumskilyrði að fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið, eða hvað?
Ég kannaði það fyrir skömmu hver mín staða væri og nú er ég komin með góð laun, enda hætt hjá ríkinu en þar sem ég á engan sjóð eða fasteign til að selja þá eru mér bara allar dyr lokaðar. Þegar ég var lágtekjumanneskja náðu endar ekki saman og þá fór að myndast skuldahali, sem svo margir kannast við. Bankinn minn ljáði mér vissulega lán en það er ekki að sjá að borgað sé af þessum lánum því ekki lækkar höfuðstóllinn sem nokkru nemi, vextir og verðbætur sjá fyrir því. Þetta eru tvö lán svo mér datt í hug að slá þeim saman og lengja tímann til að létta á skuldabyrðinni og geta eitthvað notið þess að hafa loksins góð laun. Það var ekkert mál frá hendi bankans en ég varð að borga aftur öll þau gjöld sem ég hafði gert við upphaf lánanna. Ég þakkaði gott boð en spurði svo hvernig það væri ef lánstími þeirra beggja væri lengdur. Það kostaði X upphæð á hvort lán. Ég þakkaði aftur pent og bankinn fær víst að ræna mig eitthvað áfram, því þetta kalla ég ekkert annað en rán. Þannig er nú það.
Það er ekki góð tilfinning að njörvaður niður og fastur í klafa bankakerfisins.Þeir græða og græða en ekkert af því skilar sér til okkar sem borgum þeim þá okurvexti sem í boði eru. Ég er á sama reit og svo margir aðrir sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð og eiga ekkert lausafé. Ég er þó betur sett en margur annar þar sem ég hef húsnæði og þarf ekki að hýrast inni á vinum eða ættingjum eða þá sofa í bílnum mínum eins og eitthvað er um að fólk þurfi að gera. Velferðarþjóðfélag, já, þetta er merkilegt orð, orð sem mér þykir ekki alltaf passa við þjóðfélagið okkar því kannski legg ég annan skilning í orðið "velferð" og þá kemur mér í hug gamla fólkið okkar en það er nú efni í annan pistil.
Hún var sannarlega falleg birtan í ljósaskiptunum í kvöld, skreytt af tungla karlinum sem ljómaði á himninum, meira en hálffullur hann er flottur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.