19.11.2007 | 20:09
"Sauðdrukkinn úti í hrauni lá ......."
"Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas og hraut eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu" Þannig sönglaði Megas um skáldið frá Hrauni. Þessi kveðskapur átti nú ekki upp á pallborðið hjá öllum og þótti mönnum að skáldinu vegið. Ég held nú að Megas hafi fengið fyrirgefningu þessa fólks í dag. Þetta er snilld og lýsir eins og svo margir textar hans þvílíku hugarflugi og frásagnarsnilld.Þessi kveðlingur kemur mér ætíð í hug þegar minnst er á Jónas. Það er skemmtileg tilviljun að fyrir fáum vikum las ég bókina "Fáfræðin" eftir tékkann Kundera. Ein sögupersónan, sem flúið hafði land til Danmerkur og kvænst þar danskri konu, rifjar upp sögu sem kona hans hafði sagt honum. Það er sagan um dauða Jónasar Hallgrímssonar, sem hann kallar "rómantískan skáldjöfur og mikinn baráttumann fyrir sjálfstæði Íslands" hvernig hann síðan vitjaði "íslensks iðnjöfurs" og bað um að bein sín yrðu flutt heim, þar sem hann var jarðsettur í Kaupmannahöfn. "Beinin mín hafa hvílt i útlenskri mold,í landi óvinarins, í hundrað ár. Er nú ekki orðið tímabært að þau komist aftur heim til hinnar frjálsu Íþöku sinnar" Svo er sagan rakin þegar iðnjöfurinn fer að sækja beinin og stendur frammi fyrir því að skáldið hafði verið jarðsett meðal fátæklinga og einungis númer að fara eftir. Þegar svo gröfin var rofin voru þar nokkrar beinagrindur og úr vöndu að ráða. Það hafi svo verið mál manna að hinn íslenski iðnjöfur hafi haft með sér bein dansks slátrara en ekki bein skáldsins til Íslands.
"Bein Jónasar hvíla s.s. ennþá í tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá Íþöku hans, í óvinalandinu" Þeim hjónum þótti sagan fyndin og af henni mætti auðveldlega draga siðferðislega ályktun: fólk kærir sig kollótt um hvar bein dauðs manns liggja. Mér þótti gaman að Kundera skyldi flétta sögu Jónasar, eða hluta hennar, inn í sögu sína en bókin fjallar jú um þá sem snúa heim aftur eftir langa fjarveru, eins og Ódysseifur forðum til sinnar Íþöku. Á eftir að lesa meira eftir tékkann Kundera. Nú eru Bókatíðindi 2007 komin inn á hvert heimili, það er alltaf spennandi að glugga í þá skruddu Það er ein af þessum föstu skemmtilegu vísan á að jólin séu á næsta leiti þegar tíðindin blessuð eru komin í póstkassann.
Athugasemdir
Hæ frænka. Skemmtilegur pistill þetta og svo er ég er alveg sammála þér að það er alltaf ákveðin stemming að fá bókatíðindin inn um lúguna. Það er svona næstum því jólalykt af þeirri skruddu.
Andrés Skúlason, 19.11.2007 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.