27.10.2007 | 17:07
Ég er reið.
Hvernig væri nú að stjórnin færi að koma í verk því sem þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar. Er þetta fólk svo upptekið af embættum sínum og framapoti að það ýtir til hliðar því sem máli skiptir og til hvers það er þarna. Mér dettur það oft í hug að það að ná völdum og komast í ráðherrastól sé bara mörgum ofviða, það einfaldlega höndli það ekki. Það er alltaf verið að sigla milli skers og báru og hugnast öllum. Það einfaldlega gengur bara ekki upp að vinna þannig. Öryrkjar og eldri borgarar hafa verið vanvirtir svo árum skiptir og það var boðskapur stjórnarflokkanna beggja að taka á þessum málum. Þetta eru hlutir sem eiga að mínu mati að ganga fyrir, þeir eiga að vera framar í forgangsröðun en raun ber vitni. Ég heyrði viðtal við ættingja alsheimersjúklinga einn morguninn í liðinni viku, fólk sem búið var að ganga milli Heródesjar og Pílatusar hvað varðar aðbúnað þessa fólks og hvorki gengur né rekur. Þeir vitnuðu til tíma Sifjar sem heilbr.ráðherra en ekkert hefur gerst. Þeir höfðu einnig haft samband við aðra aðila s.s. þjóðkirkjuna m.a. en þar var þeim einfaldlega ekki svarað. Ég verð alltaf mjög hnuggin þegar ég heyri svona og mér verður hugsað til þess sem við köllum "vanþróuð lönd" já "vanþróað", það er greinilegt að víða ríkir "vanþróun" hvað er það annað en vanþróun að setja til hliðar þá sem minna mega sín eins og öryrkja og segja bara eins og stöku þingmaður hefur gert að það sé bara ekkert mál að lifa á þessum bótum, fólk verði bara að sníða stakk eftir vexti. Það er nú það. Gamla fólkinu er bara plantað inn á stofnanir og þar má það dúsa við lágmarksþjónustu, ég segi lágmarksþjónustu því það blessað fólk sem þar vinnur kemst einfaldlega ekki yfir nema það sem kallast lágmarksþjónusta. Þegar ekki er hægt að sinna einstaklingi nema á kaffi og matartíma, þess á milli liggur hann í rúmi sínu og í sumum tilfellum í algerri þögn því ekkert áreiti er. Þetta er hreint út sagt skelfilegt. Ráðamenn þjóðarinnar ættu að skammast sín. Eldri borgarar þessa lands eru þeir sem búnir eru að byggja grunninn að því sem þetta svokallaða alsnægtaþjóðfélag er í dag. Alsnægtirnar eru bara ekki að skila sér til á rétta staði. Það er ekki nóg að tala fjálglega þegar kosningar eru í nánd eins og t.a.m. Samfylkingin gerði og gleyma sér svo í leðurklæddum stólum alþingis. Það má vera að þetta fólk sé búið að safna í sarpinn sinn aurum og sjá fram á að geta keypt sér góða þjónustu í ellinni og ef eitthvað hendir, en það er nú bara þannig að það hafa ekki allir þau tök í lífinu. Þeir sem gefa sig út fyrir að vera menn félagshyggju og jafnræðis eiga að vera menn til að standa við það. Ég hef það á tilfinningunni að hræðsla við að missa stólinn sinn eigi þarna hlut að máli. Ég er reið. Ég er reið vegna þess misréttis sem ríkir í þjóðfélagi sem út ávið telur sig ofarlega á lista meðal fremstu þjóða.......en í hverju. Það væri kannski ráð að staldra aðeins við og hætta þessu ani og huga að rótinni. Það er nefnilega þannig að ef rótin fær ekki næringu sem skyldi þá teygja sig út langir veikir angar, þannig sé ég þetta fyrir mér. Lífsgæðakapphlaupið er löngu hlaupið með okkur í gönur og við komin ljósár frá grunninum okkar. Það snýst allt um útrás hér og útrás þar, græða, eignast flottustu húsin og stærsta bílinn, en sálin gleymist. Ég skora á þá stjórnarmenn sem gera sig út fyrir félagshyggju að opna nú á sér augun og standa við orðin sín.
Það er annars ljómandi veðrið í borginni þessa stundina,uppstytta og tært loftið. Ég var að skemmta mér við að horfa á rollinga gera prakkarastrik áðan utan við húsið mitt. Það var nú ósköp saklaust, en ég vona að það verði ekki hlutskipti þessa ungviðis að eyða sínu ævikvöldi við "lámarksþjónustu" á einhverju af öldrunarheimilum landsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.