29.9.2012 | 00:49
Riff
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2009 | 23:41
Er langlundargeðið að fara með okkur til ........ ?
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja, svo margt leitar á hugann þessa dagana. Mér finnst eins og allt sé stopp. Almenningur kom loks út úr skápnum og lét til sín taka, en svo þegar þessi blessuð stjórn sem nú situr var sest á valdastól, var eins og allur máttur væri þorrinn úr fólki. Hvað veldur? Við erum ekki sjálfum okkur samkvæm ef við bara segjum já og amen núna. Það er langt í land og að mínu viti ekki komin í höfn öll þau áherslumál sem sett voru á oddinn. Við höfum jú náð vissum áfanga en megum ekki láta deigan síga og hætta þegar hæst lætur. Það verður að hamra járnið meðan það er heitt, það er nú bara þannig.
Ég horfði á viðtal Sigmars í kvöld við Davíð nokkurn Oddsson. Þetta var skondið viðtal, svo ekki sé meira sagt. Dabbi vill allt í einu að hugsað sé um litla manninn. Ætli það sé hinn sami litli maður og hann tjáði sig forðum um í viðtali varðandi mæðrastyrksnefnd, ellegar þá sem hafa notfært sér matargjafir. Þið verðið að fyrirgefa en mér er verulega misboðið þegar menn haga sér svona.Menn sem vita varla aura sinna tal og hafa margir hverjir aldrei þurft að hafa áhyggjur af að eiga til næstu máltíðar, eru að belgja sig út og gefa yfirlýsingar. Bara....fussum...svei.
Við verðum að opna augun og sjá hvað er að gerast hér í okkar fyrrum velferðarþjóðfélagi. Fjöldi manna hefur misst vinnuna sína og á varla til hnífs og skeiðar. þannig er það. Ég veit að það er ekki auðvelt fyrir þann sem vinnu hefur og getur framfleytt sér, þó naumt sé hjá mörgum, að setja sig í spor þeirra sem enga von eygja og vita ekkert hvert þeir eig að snúa sér. Mér hefur þessa dagana verið hugsað til þorpanna úti á landi þar sem mannlegu samskiptin eru meiri og öll persónuleg þjónusta einnig. Nú er ég kannski að alhæfa, en ég er líka að tala af eigin reynslu.
Ef við viljum breytingu þá er lag, NÚNA. Ég, persónulega er orðin örþreytt á flokkræði liðinna ára og horfi því með von til stjórnlagaþings og þeirra breytinga sem að það gæti áorkað.
"Hvað tefur þig bróðir"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.1.2009 | 22:32
Svartur forseti í USA :) :) Er þá ekki komin tími á lýðræði á Íslandi? Ég bara spyr?
Hó..hó....hó.
Hvar erum við stödd. Þessi litla þjóð sem hjarir hér rétt sunnan við norðurheimskautsbaug?
Bandaríkjamenn eru nú loks búnir að opna sín augu til réttlætis og blökkumaðurinn Obama réttkjörinn forseti. glæsilet. Ekki annað hægt að segja.
Við hins vegar sitjum hér á hjaranum og grátbiðjum um lýðræði, en er hafnað.Halló.....Halló... Hvað er í gangi ?
Erum við ekki þjóðin sem allt getur, allt veit og hefur lausn á öllum heimsins vanda ? Það segja ráðamenn okkar alltaf þegar þeir eru spurðir. Við reyndar líka.
Ég var við Alþingishúsið í dag, vitaskuld. Mín sannfæring og mín réttlætiskennd býður ekki uppá heimasetu.............nebb, ekki að ræða það. Ég er afskaplega glöð að eiga þennan kost að geta farið og mótmælt. Mótmælt öllu því déskotans siðleysi sem viðgengst hefur. íslenska þjóðin er búin að ganga með lokuð augun helst til lengi og er ég þar ekki undanskilin. Augun okkar hafa LOKS opnast og við viljum að á okkur sé hlustað. Við erum með her fólks í vinnu á þessu svokallaða "Alþingi" og það slær skollaeyrum við óskum okkar. Ef ríkisstjórnin ekki lætur segjast, þá á stjórnarandstaðan að sjá sóma sinn og víkja.Þeir eru nefnilega búnir að vera bullandi meðvirkir allan tímann. Með því einu að sitja.
Hvar í andsk..............er jafnaðarstefnan sem seld var fólkinu fyrir síðustu kosningar. Hvar er "Fagra Ísland" Ef það fólk sem þetta seldi, sér ekki meinbugina,sér ekki frumhlaupið eða öllu heldur dómgreindarleysið í sölunni. Þá er eitthvað MIKIÐ AÐ........og þá meina ég MIKIÐ.
Það er umhugsunarefni, hvort sitjandi fulltrúar á Alþingi þar með taldir ráðherrar, séu á einhvern hátt persónulega flæktir í "HRUNIÐ" ...............Hvað á maður að halda??????
Það væri nú gaman ef rannsakað yrði heilabú þeirra sem í ríkisstjórn sitja nú, þar eru að koma fram afar sérkennilegir þættir sem eru sannarlega rannsóknarverðir. Kannski eitthvað fyrir KÁRA.
Ég er búin að standa vaktina frá fyrsta degi. Það eru orðnar ansi margar vikur skal ég ykkur segja. Það sem ég fer fram á er ofureinfalt.
Stofnun nýs lýðræðis og ritun nýrrar stjórnarskrár.
Fleira var það nú ekki í þetta sinnið :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2008 | 20:59
Rjúfum stjórnmálasambandið við Ísrael.....STRAX
Ég er harmi slegin efir þeirri skelfingu sem nú ríður yfir Gaza. Þetta er ekkert annað en slátrun, útrýming þjóðar. Ég skammast mín fyrir að land mitt skuli hafa stutt stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma, en það er búið og gert, en ég bara trúi ekki öðru en hver heilvita maður sem vill hugsa sjái og geri sér grein fyrir því sem þarna á sér stað. Við eigum ekki að halda tengslum við ríki sem virðir engin mannréttindi og murkar líf úr börnum sem og öðrum. Ég held við ættum að hugsa okkur hvernig það væri ef börnin okkar gætu ekki leikið sér frjáls úti, alltaf væri hætta á sprengjuregni. Það fólk sem þarna býr veit aldrei að morgni hvort öll fjölskyldan er saman komin að kveldi. Ég held já, að við í þessu alsnægta þjóðfélagi, ég segi alsnægta þjóðfélagi því miðað við alla þá skelfingu sem skekur nú Gaza og ýmsar aðrar þjóðir þá megum við vel við una. Ég er ekki að tala um að við hættum okkar baráttu hér, sannarlega ekki. Við eigum að halda okkar striki og koma frá öllu þessu spillta liði sem búið er að koma okkur í þá stöðu sem við nú erum í. Það breytir ekki því að þegar svo skelfilegir atburðir gerast í fjarlægu landi þá eigum við að nota allt það afl sem við eigum til að hjálpa. Við sem þjóð eigum ekki að vera vinir allra, eins og t.d. Ísraels og Kína. Ég er ósátt við stjórnmálatengsl við þessi ríki sem troða á mannréttindum. Þessi tvískinnungur sem er í orðum ráðamanna þar á meðal forsetans, valda mér velgju og ógeði. Þeir koma fram fyrir þjóðina og tala um virðingu, réttlæti og ekki má gleyma "mannréttindi" en hvað svo ? Þeir leggja land undir fót og fara í heimsóknir til þessa BÖÐLA, vinsamlegir og ljúfir sem lamb, því þeir eru svo miklir VINIR. Oj bara, hvar er samviska þessa manna? eða eru þeir samviskulausir? Fjandinn sjálfur, ég get ekki annað sagt. Það er ekki að sjá, né heyra, að þeir geti með nokkru móti greint á milli hver er BÖÐULL og hver ekki. Við eigum ALLTAF að standa með þeim sem minna mega sín, ég tala nú ekki um þegar slátrun á fólki er orðin markviss aðgerð eins og nú gerist á Gaza. Ég var á Lækjartorgi í dag þar sem komið var saman og mótmælt þessu blóðbaði Ísraela. Þar sá ég spjald sem á stóð "Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn" Þessar línur úr ljóði Kristjáns frá Djúpalæk, ljóði sem lifir með íslensku þjóðinni. Þar var það að vísu "djarfur" breskur dáti að verki, dáti sem "óvart" skaut litla palestínska stúlku i stað föður hennar. Þetta ljóð var lesið upp í kvöldfréttatíma á ruv í kjölfar fréttar sem lesin hafði verið í hádeginu. Þetta var eins og að tíminn færi til baka og ég hugsaði hversu stutt við erum komin í þroska að við skulum enn og aftur þurfa að koma saman og mótmæla slíkum hryðjuverkum.
Ég er sorgmædd og döpur fyrir hönd Palestínsku þjóðarinnar. Ég er samt glöð í hjartanu mínu að hún móðir mín skyldi kenna mér það í uppvextinum að ALLT kæmi okkur við, ALLIR væru jafnir hvar sem í heiminum væru og hvaða litarhátt þeir bæru.
Ég sendi hér með ákall til ykkar landar mínir. Knýjum á stjórnvöld að slíta öllu sambandi við Ísrael og Kína.
Ég óska þjóðinni minni góðra og gleðiríkra áramóta og kjark til að standa með sjálfri sér í baráttunni á komandi ári.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.12.2008 | 00:40
Langlundargeð þjóðarinnar gæti orðið dýrkeypt.
Það sem á undan er gengið í þjóðfélaginu á ekki sinn slíkan. Ég verð alltaf meira og meira skelfingu lostin eftir því sem dagarnir líða og fleira kemur í ljós um þá spillingu sem á sér stað í þjóðfélaginu. Ég hef velt því mikið fyrir mér, hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki tekið harðar á málum en raun ber vitni. Er þetta blessaða fólk bara ekki líka flækt á einhvern hátt inn í alla græðgina sem hér réð ríkjum, ekki kæmi það mér á óvart. Eitthvað veldur því að ekki er neitt aðhafst.
Ég hef staðið vaktina hvern laugardag til þessa ásamt öllum hinum, en nú hefur heldur betur fækkað á vellinum. Ég er SVO hrædd að uppgjöf eða þetta blessaða langlundargeð okkar sé að koma okkur í koll. Við MEGUM ekki gefast upp. Það verður "að halda sjó," eins og sagt er á sjómannamáli. Það er við ramman reip að draga, veit ég vel, en fjandinn sjálfur, við höfum allt að vinna, engu að tapa. Það er bara komin tími til að fólkið í landinu segi sitt og þess vegna taki af skarið. Við eigum ekki að láta bjóða okkur þá svívirðu sem þessi svokallaða ríkisstjórn býður okkur uppá. Þau eru að vinna sér tíma einhverra hluta vegna , það sýnist mér augljóst.
Þetta er bara "fólk" þarna inni á þingi, eins og ég og þú. Breyskir einstaklingar sem eiga eflaust erfitt með að standast freistingar græðginnar, sem riðið hefur Íslandinu okkar svo fantalega.
Ég held að vandinn okkar sé mikið sá að við kunnum ekki að takast á við svoddan, sem nú ríður húsum, við kunnum ekki að mótmæla, við ÞORUM ekki.Fólkið sem staðið hefur vaktina BETUR en við sem höldum okkur við þessi hefðbundnu mótmæli hvern laugardag,á heiður skilið. Það ÞORIR. Hvað sagði ekki Kvennalistinn á sínum tíma "Ég þori, get og vil" jahá, þannig var nú það. Ég skal segja ykkur það að frá því fyrsta var mín trú að skipta yrði út í ÖLLUM þeim áhrifa stöðum sem þessu tengist. Þetta er ekki flókið, ekki frá mínum bæjardyrum séð, EN, þegar maður hefur ekki hreinan skjöld og þarf að varðveita einhver "leyndarmál "þá er ekki hægt að "tækla"hlutina svona.
Ég segi bara BURT allt þetta SK'ITAPAKK. Þið hafið ekki þá dómgreind til að bera sem hæfir stjórnendum landsins okkar. Svo einfalt er það nú bara.
Nú eru jólin að bresta á :) sá yndislegi tími. Við megum samt ekki sofna á verðinum.
Hátíð ljóssins, í landi myrkursins sem yfir okkur grúir.
Ég óska ykkur góðra og friðsælla jól. Ég vona að þjóðin mín láti af sínu langlundargeði og KREFJIST réttlætis , má þar nefna "kvótann" sem ég vil sjá til baka fenginn og er ósátt, að ekki skuli aðrir en hinn "frjálslyndi" flokkur knýja þar á.
Ég ætla í öllum þessum róstum að taka mér rólega stund og lesa "Aðventu" Gunnars Gunnarssonar, í þriðja eða fjórða skiptið :) þetta er bara svo frábær þjóðleg saga, sem kemur manni til að "hugsa".
Gleðileg jól yndislegu landar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.11.2008 | 11:15
Austurvöllur í dag :) að sjálfsögðu :)
Vonandi fjölmenna landar mínir á Austurvöll í dag vel dúðaðir. Vetur konungur hefur knúið dyra og kuldaboli nartar væntanlega í nef mótmælanda í dag.
Það er yndislega napurt, enda kominn nóvember og aldeilis tími til að fá aðeins snjó Ég vona sannarlega að fjölmennt verði á "vellinum " eftir hádegið.
Við víkingar látum ekki kuldabola hræða okkur nei, ó nei. Nú kemur íslenska ullin að góðum notum.
Hlakka til að sjá ykkur í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2008 | 03:36
Draumurinn hans Lasse :)
Það er margt sem herjar á hugann þessa daga. Ekki að undra, í slíku samfélagi sem við nú búum. Það er að vísu sama samfélagið, en önnur formerki ráða nú ríkjum. Það er eflaust í bakkafullan lækinn að bera að tjá sig um það allt, sem nú skekur okkar blessaða samfélag. Blessað skal samt vera, að aðstandendur mótmæla að undan skuli vera búnir að slíðra sverð og ná samkomulagi, Það er vel.
Ég er ein af þessum þrákálfum, sem er ekki sátt við þann ráðahag sem hefur viðgengist. Ekki sátt við að þeir menn sem eru í vinnu hjá "okkur" hundsi rödd almennings, okkar sem sjáum þeim farborða. Það vill oft gleymast þegar þessir ráðamenn eru teknir tali, hverjir sjá fyrir þeim :) elsku körlunum.
Lasse Tennander segir í ljóði sínu "Draumurinn". "Og draumur minn er hreint sjálfsagður, þér sæmir best að trúa á það, því hann fjallar um réttinn til atvinnu og frelsis til að velja samastað"
Hann talar líka um dagheimilispláss, grænar grundir, þig og mig og sumarnótt og um samfélagið þar sem "þú ert þú og ég er ég" og við þorum að standa upp og segja "okkar barátta er sameiginleg"
Já, þó langt sé um liðið frá því þessi ágæti Lasse tjáði þessi orð, eiga þau við enn í dag. Það er nefnilega þannig að ýmis gildi eru eilíf,. Einmitt þessi einföldu, réttlátu, góðu gildi. Þessi gildi sem trúlega allir í hjarta sínu eru sammála um, en láta svo gjarnan glepjast af ........hvað eigum við að segja. Græðgi, skammsýni, fáfræði, stundargrunnhyggni. Ég veit svo sem ekki hvað á að kalla okkur :(
Eitt veit ég, það eru erfiðir tímar framundan og við verðum að vera vel á verði. Áróðurinn er strax byrjaður hvað varðar stækkun álversins í Straumsvík. Ég kom við í verslunarmiðstöðinni Firði á leið heim úr vinnu i dag og það voru þrír....þrír, aðilar sem gáfu sig á tal við mig til að falast eftir undirskrift varðandi stækkun álversins. Ég var verulega slegin. Ætlum við ekki að læra neitt af fenginni reynslu undangenginna ára, á bara að halda áfram sama ruglinu og sukkinu. Er það framtíðarsýn okkar að fjölga álverum og stækka þau sem fyrir eru. Selja orkuna okkar til þeirra á skítaprís (afsakið slettuna)
Við höfum að mínu mati engan rétt til að planta niður álverum og virkjunum á þessu litla landi okkar. það eru kynslóðir sem taka hér við og ég get lofað því að það er ekki í þeirra þágu að gera slíkt. Börnin okkar vilja ekki sjá landið sitt þakið skógi raflína og hvern læk virkjaðan. Opnum augun. Við búum hér á lítilli eyju, paradís framtíðarinnar, ef við viljum :) Látum ekki stundargræðgi glepja okkur sýn. Viljum við ekki öll geta farið út í óspillta náttúru án þess að hafa girðingu raflína fyrir augum. Viljum við ekki líka sjá ár okkar og læki renna óhindrað til sjávar á sinn eina og sanna náttúrulega hátt.
Það er margt ákallið, en Það ákall að passa upp á landið sitt verður aldrei of oft kveðið. Þetta land er í okkar umsjá og við eigum að skila því eins ósnortnu og við mögulega getum til okkar afkomenda. "sem mest ósnortið" er ekki land sem er í klafa álvera, raflína og virkjana, það sér hver sá sem nennir að hugsa.
Ég óska ykkur landar mínir, alls hins besta og vona að sem flestir sem búa hér á suðvesturhorninu komi í gönguna miklu:) sem fer frá Hlemmi kl. 14:00 Við búum í lýðræðisríki........er það ekki :) það er sagt svo :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2008 | 21:43
"Þögn er gulls ígildi" eða hvað.......................
Er það þetta gamla máltæki sem ráðamenn ríkisstjórnar og seðlabanka vilja hafa í heiðri þessa dagana.............eða hvað ? Það er með fádæmum að hlusta á þessa menn sem eru í forsvari, hversu loðmæltir þeir eru í svörum þegar innt er eftir aðgerðum í fjármálum landsins.Þar má nefna fjármálaráðherra og seðlabankastjórann Davíð Oddsson, en þeir tveir hafa verið sérlega lokaðir og loðnir í svörum hvað aðgerðir snertir.
Er þetta ekki eitthvað sem okkur kemur við eða hvað'? Við erum búin að bíða vikum og mánuðum saman eftir að eitthvað verði gert, en ekkert gerist. Landsmenn, þið verðið bara að bíða og halda ykkar ró!
Eiga þetta að kallast ábyrgir menn? Frá mínum bæjardyrum séð valda þeir engan vegin þeirri ábyrgð sem þeim er ætlað að axla. Þetta er ekki þeirra einkamál, þetta er mál sem alla þjóðina varðar og við viljum fá svör, við viljum fá ábyrgar ákvarðanir. Hver dagur skiptir máli.
Það má vera að þetta ástand komi ekki við þá persónulega og því sé látið reka á reiðanum. Ef svo er þá þarf ábyrgari menn en þessa til að "þora"að gera það sem gera þarf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2008 | 23:43
Stoltir og glaðir íslelndingar :)
Það var frábært að vera niður á Arnarhóli í dag og fylgjast með því þegar "silfurskotturnar" ( eins og einhver gárungi kallaði piltana) renndu í hlað á Gleðibílnum Þvílíkt og annað eins.
það komu tár í augu og gæsahúð á kroppinn, þetta var svo glæsilegt og strákarnir okkar eiga það sannarlega skilið.
Ég verð nú að viðurkenna að ég átti ekki von á svona gífurlegu margmenni, en yndisleg tilfinning hversu mikil gleði og stolt var í þessum þúsundum manna við að fagna þessum glæsilegu víkingum okkar.
Góð tilfinning og gott að vera íslendingur í dag
Þið eru bestir og lang....lang flottastir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2008 | 21:14
Ramses og strákarnir okkar :)
Sannarlega góðar fréttir að Paul Ramses fái mál sitt tekið til endurskoðunar, það gleður mig sannarlega. Hugur minn hefur oft reikað til hans og konu hans að undan og þeirrar aðstöðu sem þau eru í. Það getur víst enginn nema sá sem í þvílíkum sporum lendir, ímyndað sér þá skelfingu sem það er að þurfa að yfirgefa ættland sitt og geta jafnvel aldrei snúið til baka. Það gerir enginn að gamni sínu. Það eru því gleðitíðindi að hann skuli vera á leið til baka til Íslands, landsins í norðrinu þar sem barist var fyrir lýðræði hér í eina tíð. Baráttan sú losaði okkur við ok annarar þjóðar sem búin var að drottna of lengi, það ætti því að liggja í hlutarins eðli að þeir sem þessa eyju byggja geti að einhverju leiti sett sig í spor þeirra sem búa við kúgun og óréttlæti. Ramses á sér stóran vina og stuðningshóp og það var einkar ánægjulegt að taka þátt í samstöðunni við Dómsmálaráðuneytið í sumar, einkum og sér í lagi þar sem það skilaði þessum góða árangri :)
"Strákarnir okkar" koma svo galvaskir á miðvikudag, þá verður sko gleði í hjörtum landsmanna, það er ekki spurning þeir voru SVO glæsilegir og baráttuglaðir. Það tók á að horfa á leikina, því er ekki að neita en, silfur............... er það ekki dásamlegt. Það var hlegið og grátið, tilfinningarnar báru fólk gjörsamlega ofurliði. Þannig á það líka að vera, lifa sig inn í leikinn og vera með Spennufallið þegar þetta var svo búið var skrambi slæmt, ég tók á það ráð að taka mér göngu í henni Krísuvík, aðeins að ná mér niður. það var mjög gott að komast út í náttúruna og róa hugann.
Þeir eru bestir og flottastir, það er ekki spurning
Áfram Ísland
"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)